Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 620. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 991  —  620. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál fyrir árið 2002.

I.     Inngangur.
    Fyrsta ráðstefna þingmanna og fulltrúa norðurskautssvæða var haldin í Reykjavík árið 1993, en takmörkuð samvinna norðurskautsríkja hafði hafist nokkru áður þegar samþykkt var áætlun um umhverfisvernd á norðurslóðum í Rovaniemi, Finnlandi, árið 1991. Ráðstefnan í Reykjavík árið 1993 markaði hins vegar upphafið að stofnun þingmannanefndar um norðurskautsmál sem sett var á laggirnar árið 1994. Nefndin er stjórnarnefnd þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin er á tveggja ára fresti. Á ráðstefnunni kemur saman stór hópur þingmanna frá ríkjunum við norðurskaut, sem og sérfræðingar frá ríkisstjórnum, háskólastofnunum og félagasamtökum er láta sig málefni norðursins varða. Eitt meginviðfangsefni þingmannanefndarinnar, þ.e. stjórnarnefndar þingmannaráðstefnunnar, er að fylgja eftir samþykktum þessarar ráðstefnu. Þingmannanefndin fundar að jafnaði þrisvar á ári og einn þingmaður frá hverju aðildarríki situr í nefndinni. Þjóðþing Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands og Norðurlanda eiga fulltrúa í nefndinni og auk þess á Evrópuþingið fastan fulltrúa.

II.     Skipan Íslandsdeildar þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál.
    Fram til ársins 2002 skipaði forsætisnefnd fulltrúa Alþingis í þingmannanefnd um norðurskautsmál en fulltrúar á þingmannaráðstefnuna voru valdir sérstaklega hverju sinni. Vegna örrar þróunar í þessum málaflokki var hins vegar ákveðið að stofna sérstaka Íslandsdeild þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál þar eð vægi norðurskautssamstarfsins á alþjóðlegum vettvangi fer mjög vaxandi. Ákveðið var að Íslandsdeild yrði skipuð þremur þingmönnum (og þremur til vara) og mundi Íslandsdeildin sækja ráðstefnuna sem haldin er á tveggja ára fresti. Formaður situr fyrir hönd Íslandsdeildarinnar í stjórnarnefnd ráðstefnunnar, þingmannanefndinni, en í forföllum hans situr varaformaður fundi nefndarinnar. Íslandsdeild fundar eftir þörfum og þá gerir formaður grein fyrir starfi stjórnarnefndarinnar og hún fær jafnframt upplýsingar um starf Norðurskautsráðsins.
    Árið 2002 skipuðu Íslandsdeildina Sigríður A. Þórðardóttir formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Magnús Stefánsson varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Katrín Fjeldsted, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Þuríður Backman, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og Kristinn H. Gunnarsson, þingflokki Framsóknarflokks.
    Ritari Íslandsdeildar var Guðfríður Lilja Grétarsdóttir alþjóðaritari.

III.     Almennt um norðurskautssamstarf.
    Almennt má segja að helstu verkefni í norðurskautssamstarfi lúti að sjálfbærri þróun og nýtingu náttúruauðlinda norðurskautsríkjanna jafnhliða umhverfis- og náttúruvernd. Sérstök áhersla er einnig lögð á varðveislu menningararfleifðar og lífshátta þeirra þjóðflokka er byggja landsvæðin við norðurskaut, sem og aukna efnahagslega og félagslega velferð og velmegun íbúa norðursins.
    Í fyrstu sneru verkefni þingmannanefndarinnar aðallega að ýmsum málum er við komu stofnun Norðurskautsráðsins árið 1996, en ráðið byggist á sameiginlegri yfirlýsingu og samstarfi ríkisstjórna aðildarríkjanna átta. Nokkur samtök frumbyggja á norðurslóðum eiga einnig fasta fulltrúa í ráðinu og auk þess eiga ýmis ríki, alþjóðasamtök og frjáls félagasamtök áheyrnaraðild að ráðinu.
    Á síðari missirum hefur þingmannanefndin lagt sérstakan metnað sinn í að hafa frumkvæði að mismunandi verkefnum sem hægt er að leggja fyrir Norðurskautsráðið til framkvæmda. Jafnvel þótt samstarf norðurskautsríkja eigi sér fremur stutta sögu hefur það fætt af sér margvísleg sameiginleg verkefni og stofnanir.
    Þar mætti fyrst telja Háskóla norðurslóða sem var stofnaður við hátíðlega athöfn í Rovaniemi 12. júní 2001, en stofnun skólans hafði þá verið fjögur ár í undirbúningi í aðildarlöndunum. Háskólanum er fyrst og fremst ætlað að vera tengiliður á milli annarra háskóla, rannsóknastofnana og samtaka sem sérhæfa sig í rannsóknum á löndum við norðurskaut. Háskólinn býður nú upp á formlega B.S.-gráðu í heimskautsfræðum og undirbúningur fyrir frekari námsáætlanir er í fullum gangi, en námið fer að miklu leyti fram með fjarkennslu í gegnum aðrar háskólastofnanir á norðurslóðum.
    Líkt og Háskóla norðurslóða er Rannsóknaþingi norðursins ætlað að auka samráð á milli vísindamanna og hagsmunaaðila á norðurslóðum. Annað hvert ár er efnt til formlegs rannsóknaþings og var fyrsta þingið haldið í Háskólanum á Akureyri 4.–6. nóvember árið 2000. Þátttakendur á rannsóknaþinginu koma víða að og eru þar m.a. vísindamenn, kennarar, stjórnmálamenn, embættismenn, stjórnendur fyrirtækja og athafnamenn í auðlindanýtingu. Meginmarkmið þingsins er að styrkja samskiptanet, flæði upplýsinga og samstarf á milli ólíkra hópa sem vinna að málefnum norðursins, og gera þannig vísindamönnum kleift að tengjast betur aðilum utan háskólasamfélagsins, svo sem stjórnmálamönnum og fólki í atvinnurekstri. Í framhaldi af síðasta þingi voru stofnuð samtök doktorsnema sem starfa í tengslum við Háskóla norðurslóða.
    Auk háskólans og rannsóknaþingsins mætti benda á ýmis mikilvæg rannsóknaverkefni og vinnuhópa vísindamanna sem heyra beint undir Norðurskautsráðið. Þar á meðal eru CAFF („Conservation of Arctic Flora and Fauna“), sem stuðlar að rannsóknum á verndun plantna og gróðurs á norðurskautssvæðum og PAME („Protection of the Arctic Marine Environment“) sem vinnur að rannsóknum á verndun sjávar gegn mengun og ofnýtingu. Bæði CAFF og PAME hafa aðsetur sín og skrifstofur á Akureyri.
    Ísland gegnir formennsku í Norðurskautsráðinu árin 2002–2004 og utanríkisráðuneytið hefur nú umsjón með skrifstofurekstri þess.

IV.     Starfsemi þingmannanefndar um norðurskautsmál á árinu 2002.
    Þingmannanefndin hélt fjóra fundi á árinu, fyrst í Helsinki dagana 13.–15. febrúar, Strassborg dagana 27.–28. júní, Tromsö 12. ágúst og Ottawa dagana 19.–20. nóvember 2002. Dagana 11.–13. ágúst var einnig haldin þingmannaráðstefna í Tromsö, Noregi.
    Helstu mál í brennidepli fyrri hluta árs var undirbúningur við þingmannaráðstefnuna í Tromsö, en mikill metnaður var lagður í vandaða dagskrá. Fleiri sóttu ráðstefnuna en nokkru sinni fyrr og þótti hún sérlega vel heppnuð.
    Önnur forgangsverkefni nefndarinnar á árinu voru umræður og eftirfylgni við gerð fyrirhugaðrar þróunarskýrslu norðurskautssvæða („Arctic Human Development Report“). Skýrslan mun fjalla um félagslega, menningarlega og efnahagslega velferð íbúa við norðurskautið en hingað til hafa ekki verið gerðar rannsóknir sem beinast eingöngu að íbúum norðurskautssvæða og sjálfbærri þróun. Mikilvægt er að tekið sé heildstætt á málefnum norðursins og að byggt sé á hinni sérstæðu reynslu og þekkingu sem íbúar við norðurhjara veraldar búa yfir. Úttekt á félagslegri, menningarlegri og efnahagslegri þróun fólks sem byggir þessi svæði væri því afar gagnlegt innlegg í alla umræðu og stefnumótun.
    Þingmannanefndin átti upprunalega frumkvæði að gerð skýrslunnar og vann mikla undirbúningsvinnu á frumstigi málsins. Við undirbúning og ákvörðun á umfangi og innihaldi skýrslunnar naut þingmannanefndin góðrar leiðsagnar og aðstoðar dr. Níelsar Einarssonar, forstöðumanns Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar, og Oran Young, prófessors við Kaliforníuháskóla í Bandaríkjunum, sem skrifuðu greinargerðir um málið. Þingmannanefndin kynnti málið fyrir Norðurskautsráðinu og mæltist til þess að ráðið tæki framkvæmd skýrslunnar og skipulagningu í sínar hendur. Gerð slíkrar skýrslu var, undir forustu Íslands, formlega gerð að forgangsverkefni Norðurskautsráðsins á fundi þess í Inari, Finnlandi, dagana 4.–6. nóvember sl. Sérstökum stýrihópi sem ber ábyrgð á gerð skýrslunnar hefur verið komið á laggirnar undir forustu Níelsar Einarssonar og Oran Young. Stofnun Vilhjálms Stefánssonar mun hafa yfirumsjón með verkefninu og vonir standa til að hægt verði að kynna helstu drög og niðurstöður skýrslunnar undir lok formennsku Íslands haustið 2004. Formaður Íslandsdeildar þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál, Sigríður A. Þórðardóttir, var formlega skipuð fulltrúi þingmannanefndarinnar í stýrihópi skýrslunnar og mun reglulega segja þingmannanefndinni frá gangi mála. Þingmannanefndin hefur á fundum sínum lagt sérstaka áherslu á að þingmenn sýni vilja sinn í verki í þjóðþingum sínum heima fyrir og greiði fyrir framkvæmd skýrslunnar. Að mati Íslandsdeildar ætti Alþingi að taka þá ábyrgð sérstaklega alvarlega, ekki einungis þar sem þetta verkefni er helsta framgöngumál Íslands í forustu norðurskautsmála næstu tvö árin, heldur ekki síður vegna þess að íslenskir fulltrúar þingmannanefndar um norðurskautsmál hafa frá upphafi haft frumkvæði að gerð skýrslunnar og farið fyrir umræðum um hana.
    Annað helsta mál þingmannanefndarinnar sem hefur verið í brennidepli á árinu eru tölvu- og tæknimál, svo sem fjarkennsla og fjarlækningar. Það er ljóst að bætt tölvunotkun og fjarkennsla getur orðið íbúum norðursins mjög til framdráttar þegar fram í sækir, ekki síst þegar litið er til þess hversu strjálbýl þessi svæði eru og samgöngur erfiðar. Svíar buðust til að taka forustu í undirbúningsvinnu þingmannanefndarinnar í þessum málaflokki og héldu m.a. vinnuhópafund um áframhaldandi uppbyggingu tölvuvæðingar á norðurskautssvæðum. Þingmannanefndin lagði í framhaldinu töluverða vinnu í að undirbúa gerð sérstakrar skýrslu um þessi mál sem kynnt var á ráðstefnunni í Tromsö í ágúst sl. Ráðstefnan samþykkti í lokaályktun sinni að beina sérstökum tilmælum til ríkisstjórna á norðurskautssvæðum um að styrkja sérstaklega þennan málaflokk. Auk þess var samþykkt að tölvu- og tæknimál yrðu forgangsverkefni þingmannanefndarinnar árin 2002–2004. Það var því sérstakt gleðiefni nefndarinnar að á fundi Norðurskautsráðsins í nóvember sl. var því lýst yfir að næstu tvö árin yrðu tölvu- og tæknimál eitt af þremur forgangsverkefnum ráðsins. Í október 2003 mun ráðið standa fyrir stórri ráðstefnu um þessi mál hér á landi. Þingmannanefndin hefur fullan hug á að koma að ráðstefnunni með einum eða öðrum hætti og leggja sitt af mörkum.
    Þingmannanefndin hefur einnig fylgst grannt með rannsóknum á loftslagsbreytingum á norðurskautssvæðum. Loftslagsbreytingar hafa áhrif á nær alla þætti samfélags í norðri, ekki einungis umhverfi, dýralíf og gróðurfar, heldur einnig félags-, menningar- og efnahagslega þætti mannlífs. Nú þegar má greina margvísleg áhrif loftslagsbreytinga á norðurskautssvæðum og ljóst þykir að þróunin við norðurskaut sé eins konar fyrirboði þess sem koma skal annars staðar í heiminum. Meðalhitastig á norðurskautssvæðum er nú að mati vísindamanna það hæsta í þúsund ár og fer hækkandi. Þær loftslagsbreytingar sem eiga sér stað á 10 ára tímabili á norðurskautsslóðum má ætla að gerist á 25 ára tímabili annars staðar í heiminum. Vísindalegar rannsóknir á loftslagsbreytingum eru eitt helsta viðfangsefni eins vinnuhóps Norðurskautsráðsins og gert er ráð fyrir að hópurinn leggi fram umfangsmikla skýrslu síðla árs 2004. Áætlað er að helstu niðurstöður skýrslunnar feli ekki eingöngu í sér vísindalegt mat á stöðu mála heldur og skýra stefnumótun og tilmæli um aðgerðir stjórnvalda.
    Ýmis önnur mál hafa verið rædd á fundum þingmannanefndarinnar, svo sem samgöngumál og Norðurhafaleiðin („Northern Sea Route“). Stærsta vandamálið er að koma á fót og fylgja eftir reglum sem tryggja örugga flutninga á varningi. Auk þess þarf að vinna mikla vinnu við að byggja upp efnahag og byggð við strendur leiðarinnar, en Rússar glíma við alvarleg vandamál í þessum efnum. Hitt er ljóst að ef tækist að treysta þessa siglingaleið gæti hún orðið mikilvæg og markað ákveðin kaflaskil í samgöngumálum norðursins.

V.     Störf Íslandsdeildar árið 2002.
    Íslandsdeild hélt þrjá fundi á árinu. Íslandsdeild hefur í störfum sínum fylgst með öllum þeim málaflokkum sem greint hefur verið frá að framan. Íslandsdeild vann auk þess umtalsverða undirbúningsvinnu vegna lokaályktunar ráðstefnunnar í Tromsö og allir fulltrúar Íslandsdeildar tóku virkan þátt í ráðstefnunni og fluttu erindi. Íslandsdeild fékk Þóri Ibsen frá utanríkisráðuneytinu til fundar vegna vinnu við drög lokaályktunarinnar, og leitaði auk þess til Snorra Baldurssonar og Soffíu Guðmundsdóttur, sérfræðinga hjá CAFF og PAME. Allar þær breytingartillögur sem Íslandsdeild lagði til við lokaályktunina voru samþykktar í Tromsö. Á fundi þingmannanefndarinnar í Tromsö 13. ágúst var einnig samþykkt að Alþingi tæki að sér skrifstofurekstur og stöðu ritara þingmannanefndarinnar, en finnska þingið gaf skrifstofuna frá sér um síðustu áramót. Þótt önnur þing hefðu sýnt því áhuga að taka þetta verkefni að sér fyrir þingmannanefndina taldi formaður nefndarinnar, Clifford Lincoln, heillavænlegast að Alþingi tæki verkefnið að sér og fór þess á leit við alþjóðasvið Alþingis og fulltrúa Íslandsdeildar. Erindinu var vel tekið og frá og með áramótum 2003 færist allur skrifstofurekstur þingmannanefndar um norðurskautsmál til alþjóðasviðs Alþingis.

VI.     Þingmannaráðstefna um norðurskautsmál í Tromsö, 11.–13. ágúst 2002.
    Rúmlega sextíu þingmenn frá norðurskautssvæðum sóttu ráðstefnuna, auk fjölda fulltrúa stjórnvalda og ólíkra samtaka er vinna að málefnum norðurskautsins. Í lokaályktun ráðstefnunnar í Tromsö voru eftirfarandi fimm atriði samþykkt sem helstu forgangsverkefni þingmannanefndarinnar árin 2002–2004:
     *      Að hvetja og styðja Norðurskautsráðið til að láta vinna þróunarskýrslu norðurskautssvæða.
     *      Að þróa í samráði við Norðurskautsráðið, Evrópusambandið og önnur alþjóðleg samtök átaksverkefni í tölvu- og tæknimálum norðurskautssvæða.
     *      Að fylgjast náið með rannsóknum vísindamanna á loftslagsbreytingum og þeim margvíslegu áhrifum sem slíkt getur haft fyrir stefnumótun stjórnmálamanna á norðurskautssvæðum.
     *      Að gera skýrari sameiginleg stefnumið er varða fiskveiðar og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda á norðurskautssvæðum.
     *      Að fylgja á eftir samþykktum ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem haldin var í Jóhannesarborg í ágúst 2002.

Alþingi, 18. febr. 2003.



Sigríður A. Þórðardóttir,


form.


Magnús Stefánsson,


varaform.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.